Stundum er ástæða til að skipta út brjóstapúðum sem eru orðnir gamlir. Þá er oftast miðað við að brjóstapúðar séu orðnir tíu ára eða eldri, óháð því hvort einhver vandkvæði eru með brjóstin. Ef lögun brjósta hefur breyst, borið hefur á óþægindum/verkjum eða brjóstin orðin hörð með tímanum, þá er ástæða til að hafa samband við heimilislækninn eða tala beint við lýtalækni.
Þegar framkvæmd eru skipti á brjóstapúðum þarf lang oftast að staðsetja skurðinn í fellingunni undir brjóstum, óháð því hvar skurður var staðsettur áður. Þetta á líka við þegar brjóstapúðar eru fjarlægðir. Hvort sem púðar eru staðsettir undir eða yfir vöðva, þá þarf að meta það einstaklingsbundið hvort sami vasinn er notaður aftur. Aðgerðin tekur svipaðan tíma og fyrsta aðgerð, en er stundum vandasamari, sérstaklega ef um undangengin vandamál með brjóstin er að ræða. Þess ber að geta að ef konur hafa myndað mikinn örvef í kringum gömlu púðana, þá eru nokkrar líkur á að það gerist aftur.
Þess ber að geta að allt nikótin er bannað 4 viku fyrir og eftir aðgðerð.
Aðgerðin tekur u.þ.b. eina klst. (aðeins styttri ef púðar eru eingöngu fjarlægðir) og er nánast alltaf framkvæmd í svæfingu. Sömu reglur gilda um þessa aðgerð eins og eftir hefðbundna brjóstastækkun. Þess ber þó að geta að oftast eru mun minni verkir eftir þessar aðgerðir samanborið við fyrstu aðgerðina.
Brjóstahaldari: Sömu reglur og eftir brjóstastækkun þ.e. ráðlagt að byrja að nota sport brjóstahaldara (dag og nótt) eftir endurkomu hjá lækninum eftir þrjá til fimm daga. Ekki er leyfður brjóstahaldari með spöng fyrr en eftir 3 mánuði.
Helstu fylgikvillar
Blæðing (minna en 1 %), sýking (ca. 1 %), örvefsmyndun (2-3 %), doða tilfinning í húðinni (nokkuð algengt) fyrstu vikur og mánuði. Tilfinningin kemur hjá flestum tilbaka að einhverju leyti. Ekki er til tölur sem sýna fram á hversu margir fái tilbaka tilfinninguna. Einnig vil ég nefna nokkuð sem kallað er rippling á ensku, en um er að ræða eins kona bylgjur/fellingar í húðinni, sér í lagi á utanverðum brjóstum. Þetta er engan veginn hættulegur fylgikvilli, eingöngu útlitslegur. Því grennri sem sjúklingur er og sér í lagi ef hún fær líka stóra púða, þá er hættan meiri á þessum fylgikvilla. Það má að lokum nefna að einstaka sjúklingar fá áberandi ör eftir aðgerðina, en það getur orsakast af t.d. fylgikvillum eins og sýkingu eftir aðgerðina. Einnig skipta erfðir máli hvað varðar öramyndun.
Taugaverkir í brjóstum eða í öðru brjóstinu er ekki óalgengt eftir aðgerðina, fyrstu dagana eða vikurnar. Þetta er alveg saklaust og gerist vegna þess að minniháttar skyntaugar í brjóstum eru að gróa. Þetta fyrirbæri getur einnig átt sér stað sex til tólf mánuðum eftir aðgerðina en þá á sér stað lokastig í gróanda skyntauga.
Varðandi undirbúning fyrir aðgerð, sjá sérstakt upplýsingarblað „Upplýsingar fyrir aðgerð“ á heimasíðunni.
Einnig er hægt að nálgast „upplýsingar eftir aðgerð“ á heimasíðunni.