Eyrnasneplar geta aflagast eftir langvarandi notkun eyrnaskrauts. Sér í lagi þungt skraut getur togað eyrnasnepilinn niður með tímanum, þannig að það tognar á honum og gatið orðið mjög stórt. Gatið getur í sumum tilfellum rifnað alveg út, þannig að snepillinn klofnar. Þetta veldur eins og gefur að skilja, ankannanlegu útliti eyrnasnepilsins.
Einnig geta eyrnasneplar verið afbrigðilegir og öðruvísi frá náttúrunnar hendi og valdið einstaklingum hugarangri. Með aldrinum stækka eyrun gjarnan og þar með talið eyrnasneplar.
Löng hefð er fyrir aðgerðum á eyrnasneplum og hef ég m.a. mikla reynslu af slíkum aðgerðum. Viðgerð á eyrnasneplum vegna eyrnaskrauts eða minnkun á eyrnasneplum eru helstu aðgerðirnar sem gerðar eru.
Þess ber að geta að allt nikótin er bannað 4 viku fyrir og eftir aðgðerð.
Aðgerðin fer fram í deyfingu og e.t.v. slævingu. Hún tekur um 1 klst. Enginn sérstakur undirbúningur er fyrir aðgerðina.
Eftir aðgerðina fer sjúklingur að sjálfsögðu heim með minniháttar umbúðir á eyrum. Saumataka fer fram eftir um 10 daga. Sárið grær að mestu á tveimur til þremur vikum.
Ekki eru miklir verkir eftir aðgerðina. Miðlungs sterkar verkjatöflur s.s. Panodil og Ibufen hjálpa.
Fylgikvillar eru mjög sjaldgæfir, en þeir eru blæðing og sýking. Ör eru nánast aldrei vandamál.