Slöpp húð fjarlægð á upphandleggjum eða lærum

Eftir mikið þyngdartap, t.d. eftir magaminnkunaraðgerð eða einungis eftir stífa megrun, þá er ekki víst að húðin fylgi alveg með. Þegar sjúklingar hafa haldið stöðugri þyngd í eitt ár, þá hefur húðin fengið möguleika til að dragast saman eins og hún getur. Það er nú einu sinni þannig að húð verður fyrir varanlegum skemmdum (slit), þegar hún hefur þanist ákveðið mikið út. Hvenær húð slitnar er líka ættgengt að einhverju leyti.

Heppilegast er að panta viðtal hjá lýtalækni þegar þyngdin hefur verið stöðug í 8-12 mánuði. Þá er hægt að leggja á ráðin, hvað eigi að gera og í hvaða röð. Ekki er talið ráðlegt að gera aðgerð á upphandleggjum og lærum samtímis, vegna þess hve tímafrekar þessar aðgerðir eru. Það er mikilvægt að sjúklingar átti sig á því að afleiðingar aðgerðar eru oft á tíðum ljót eða áberandi ör.

Þess ber að geta að allt nikótin er bannað 4 viku fyrir og eftir aðgðerð.

Aðgerð á upphandleggjum tekur 2-3 klst og á lærum 3-4 klst. Auðvitað geta aðgerðirnar verið aðeins minni í sniðum og tekið þá styttri tíma. Aðgerðin krefst svæfingar. Stundum eru notuð sogdren. Oftast eru sjúklingar lagðir inn yfir nótt á sjúklingahóteli (Hótel Ísland, í sama húsi). Nauðsynlegt er að hafa aðstandanda með sér á hótelinu. Búast má við miklum verkjum í einn til tvo daga, en sjúklingar fá lyfseðil upp á sterkar verkjatöflur og sýklalyf.

Daginn eftir eru sjúklingar útskrifaðir, stundum með sogdrenin. Fylgst er með því hve mikill vökvi kemur í drenin á næstu dögum og þau fjarlægð þegar við á. Umbúðir frá aðgerðinni eru oftast fjarlægðar eftir 3-5 daga. Sumataka eftir um 12-14 daga. Það tekur a.m.k. sex mánuði þar til árangur aðgerðar kemur í ljós.

Helstu fylgikvillar

Blæðing (mar)- sést oftast, en sogdrenin koma í veg fyrir að blæðingin verði alvarleg og þarfnist enduraðgerðar, sýking (3-5 %) - getur átt sér stað þrátt fyrir fyrirbyggjandi sýklalyf. Yfirborð á aðgerðarsvæðinu er oft óreglulegt fyrstu mánuðina, húðdoði á aðgerðarsvæðinu sem gengur tilbaka að mestu leyti á 8-12 mánuðum, og síðast en ekki síst mjög áberandi ör eftir endirlöngum upphandlegg/læri.


Varðandi undirbúning fyrir aðgerð, sjá sérstakt upplýsingarblað „Upplýsingar fyrir aðgerð“ á heimasíðunni.
Einnig er hægt að nálgast „upplýsingar eftir aðgerð“ á heimasíðunni.

 

 


Kári Knútsson | Lýtalæknir

Sími fyrir tímapantanir er 519 7000

Fyrirspurnir eða tímapantanir er einnig hægt að senda á netfang This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.


Vefhönnun: Vefheimar ehf