Ég má til með að skrifa nokkur orð almennt um fegrunaraðgerðir á brjóstum, vegna þess að þessar aðgerðir eru mjög algengar, geta verið vandasamar og krefjast reynslu skurðlæknis. Brjóstin er hluti af kvenímyndinni, hvort sem þau eru lítil eða stór. Eftirsótt brjóstastærð er breytileg eftir tíðarandanum og menningarsamfélögum. Alla tíð hafa þó brjóstin verið í miðpunkti þegar kvenleikinn er til umræðu. Flestar konur sem eru að velta fyrir sér brjóstaaðgerð óska eftir meiri fyllingu í brjóstin og/eða brjóstalyftingu, eftir meðgöngur eða megrun. Sumar konur óska eftir minnkun á brjóstum vegna ofvaxtar. Aðrar óska eftir að misþroski í brjóstum verði leiðréttur. Hægt er að lesa um aðgerðir á heimasíðunni og síðar að panta viðtal hjá lýtalækni til þess að ræða og meta hvaða aðgerð hentar hverri og einni.
Þess ber að geta að reykingar(og allt nikótín) eru mjög óæskilegar 4 vikum fyrir og eftir allar aðgerðir. Sér í lagi gildir þetta um brjóstaminnkun og brjóstalyftingu.
Fyrir aðgerðina (tvær vikur) er mikilvægt að forðast lyf og fæðubótarefni sem innihalda blóðþynnandi efni s.s. kóvar, asperín(magnyl), Ibufen og lýsi. Þetta gildir í raun um allar stórar og miðlungsstórar aðgerðir.
Ég mæli með að konur yfir 40 ára fari í brjóstamyndatöku fyrir fyrirhugaða brjóstaaðgerð, sér í lagi ef einhver ættarsaga er um brjóstakrabbamein.
Sjá nánar um ofangreindar aðgerðir á heimasíðu minni.