Fitusog

Fitusog er aðgerð sem lýtalæknar gera mikið af. Ólíkt því sem flestir halda, þá er besti kandídatinn í fitusog, manneskja í eðlilegum holdum. Fitusog er ekki aðferð til að grennast, heldur til að losna við fitusöfnun á óæskilegum og fremur afmörkuðum svæðum, sem viðkomandi getur ekki losnað við. Eins og gefur að skilja, þá liggur fitudreyfing oft í ættum. Eins eru ekki öll svæði á líkamanum jafn góð til meðferðar. Fitusog er vænlegast til árangurs á eftirfarandi stöðum: á síðum, kvið, ytra og innra læri, hné og undir höku. Einnig er mikilvægt að átta sig á að það eru alls ekki allir einstaklingar kandídatar í aðgerð. Húðgerð(ættargenin) og aldur eru einnig mikilvægir þættir sem þarf að taka tillit til. Þess vegna er nauðsynlegt að hitta lýtalækninn og rabba um væntingar. Sjúklingar sem bóka aðgerð þurfa að kaupa fyrir aðgerðina þrýstings fatnað í apóteki, t.d korselett eða háar buxur fyrir síður/kvið.

Þess ber að geta að allt nikótin er bannað 4 viku fyrir og eftir aðgðerð.

Aðgerðin er ávallt framkvæmd í svæfingu, nema helst fitusog undir höku, sem er hægt að gera í deyfingu, ef sjúklingar óska eftir því. Aðgerðin tekur mislangan tíma eins og gefur að skilja, allt eftir því hversu stór svæði er um að ræða og hve mörg. Oftast tekur aðgerðin 1-2 klst. Sjúklingur vaknar með þrýstings fatnaðinn á sér, en hann er settur á hann á skurðarborðinu. Sjúklingar þurfa að vera í þessum fatnaði meira og minna í tvær vikur, eða eins og læknirinn mælir með hverju sinni.
Óþægindi og sviði eru eftir aðgerðina, en ekki miklir verkir. Venjulegar verkjatöflur s.s. Panodil og eða bólgueyðandi lyf (t.d. Ipren) duga við óþægindunum.

Árangur eftir fitusog er fyrst hægt að meta 6 mánuðum eftir aðgerð.


Helstu fylgikvillar

Mar (kemur alltaf í einhverju mæli), sýking(minna en 1 %), hnútótt yfirborð á aðgerðarsvæðinu - jafnast á 6 mánuðum og doði á aðgerðarsvæði sem gengur oftast tilbaka.
Varðandi undirbúning fyrir aðgerð, sjá sérstakt upplýsingarblað „Upplýsingar fyrir aðgerð“ á heimasíðunni.
Einnig er hægt að nálgast „upplýsingar eftir aðgerð“ á heimasíðunni.


Kári Knútsson | Lýtalæknir

Sími fyrir tímapantanir er 519 7000

Fyrirspurnir eða tímapantanir er einnig hægt að senda á netfang This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.


Vefhönnun: Vefheimar ehf