Upplýsingar fyrir aðgerð

Undirbúningur fyrir aðgerð //
Fyrir aðgerðina hittir þú svæfingalækni. Hann fer yfir heilsufarsblaðið með þér, lyfjanotkun, ofnæmi og óþol. Mikilvægt er að þú ræðir þá fylgikvilla (t.d. ógleði, uppköst) sem þú hefur fundið fyrir við fyrri svæfingar eða deyfingar, ef slíkt er fyrir hendi. Fyrir aðgerðina færð þú verkjalyf í töfluformi sem verka í og eftir aðgerðina. Einnig er settur æðaleggur í handarbak eða handlegg, hann er notaður til að gefa þér innrennslisvökva og svæfinga- og verkjalyf.

FASTA //
Nauðsynlegt er að fasta fyrir aðgerð til að minnka hættu á fylgikvillum í tengslum við aðgerðina. Eftirfarandi gildir:
• EKKI má borða mat síðustu 6 klukkustundirnar fyrir aðgerð
• DREYPA má á tærum drykkjum þar til 2 klukkustundir eru til aðgerðar. Tær drykkur er agnarlaus og án fitu, t.d. vatn, tær ávaxtasafi, te og kaffi (án mjólkur)

REYKINGAR // TÓBAK //
Við ráðleggjum öllum að hætta reykingum, a.m.k. 2 vikum fyrir aðgerð og amk í 6 vikur eftir aðgerð. Líkur á fylgikvillum aukast við tóbaksnotkun þar sem reykingar minnka blóðflæði í húð.
EKKI má nota tóbak eða tyggigúmmí síðustu 2 klukkustundir fyrir aðgerð, ef um stærri lýta-, brjósta- eða bæklunaraðgerðir er að ræða má ekki nota tóbak í 2 vikur fyrir aðgerð.

FATNAÐUR //
Við ráðleggjum þér að koma í sem þægilegustum fatnaði með tilliti til aðgerðar. Föt sem létt er að fara í og úr.

HREINLÆTI //
Þú ferð í sturtu heima að morgni aðgerðardags og sleppir öllum kremum og olíum á aðgerðarsvæði, sem og farða í andlit. Þú átt einnig að fjarlægja naglalakk af fingrum, ef slíkt er til staðar. Alla skartgripi ráðleggjum við þér að skilja eftir heima þar sem þú mátt ekki hafa þá á þér á skurðstofu.

Á SKURÐSTOFU //
Á skurðstofunni eru tengd við þig ýmis tæki til að fylgjast vel með þér á meðan á aðgerð stendur, þetta eru t.d. blóðþrýstingsmælir, súrefnismettunarmælir og hjartasíriti.

LEGA Á VÖKNUN //
Eftir aðgerðina er farið með þig á vöknun, þar sem áfram er fylgst vel með blóðþrýstingi og súrefnismettun. Í flestum tilfellum þarft þú að liggja í 1-3 tíma á vöknun eftir aðgerð, mismunandi eftir tegund aðgerðar og lengd svæfingar.Mikilvægt er að þú látir vita ef þú ert með verki eða ógleði, svo hægt sé að bregðast við með viðeigandi lyfjagjöf. Ef notuð hefur verið kokgríma eða barkarenna við svæfinguna, verður stundum vart við hálssærindi en þau hverfa yfirleitt á 1-2 dögum.

FYLGD OG AKSTUR //
Þú ert ófær um akstur ökutækja í 10 klst eftir svæfingu. Ef aðgerðin er gerð í svæfingu óskum við eftir að einhver komi og sæki þig og fylgi þér heim.

Upplýsingar eftir aðgerð

Kári Knútsson lýtalæknir

Sími: 8664796- aðkallandi erindi s.s. blæðing

This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. – ekki aðkallandi erindi

Fyrsta sólahringinn eftir aðgerð í svæfingu er mikilvægt að taka því rólega, . Þó er mælt með að reyna að vera svolítið á fótum, á milli þess að liggja og hvíla sig. Lykilatriði er að drekka vel og reyna að borða fasta fæðu. Mikilvægt er að nota ekki nikótín í 4 vikureftir aðgerðina.

Daginn eftir aðgerðina er mælt með að vera mun meira á fótum og fremur sitja en að liggja fyrir allan daginn. Ástæðan er sú að því fyrr sem líkaminn kemst í gang, því fyrr jafnar hann sig og verkirnir lagast fyrr. Þess vegna er mikilvægt að taka verkjalyfin eins og mælt er fyrir, svo hægt sé að komast af stað eftir aðgerðina. Eftir brjóstastækkun, sér í lagi, eru miklir verkir og því þarf að hafa þetta í huga.

Sturta: Eftir brjóstastækkun má fara í sturtu á þriðja degi, ath fjarlægja allar umbúðir fyrst og setja nýjan plástur eftir. Eftir; brjóstalyftingu, brjóstaminnkun, svuntuaðgerð, eyrnaaðgerð og aðrar stærri aðgerðir er sturta leyfð eftir eina viku, en auðvitað er hægt að þvo sér með þvottapoka þangað til. Eftir minni aðgerðir er sturta yfrileitt leyfð daginn eftir aðgerðina eða samkvæmt leiðbeiningum lýtalæknisins hverju sinni.

Hefðbundnar verkjatöflur eftir stærri aðgerðir eru:

Sterkar verkjatöflur: T. Parkódín forte 1-2 töflur, mest 4 x á sólahring fyrstu 2-3 dagana. Síðan þarf að trappa niður meðferðina eða hætta alveg og taka í staðinn;
Miðlungs sterkar verkjatöflur: T Panodil 1-2 töflur, mest 4 x á dag og e.t.v. Ibufen (eða álíka lyf) 400 mg 1 x 3-4.

Eftir brjóstaaðgerðir og aðrar stærri aðgerðir, er nauðsynlegt að erfiða ekki um of, sér í lagi fyrstu 2 vikurnar. Passa þarf upp á að púlsinn fari ekki mikið yfir um 90 slög á mínútu. Mælt er með rólegum göngutúrum. Ekki er ráðlegt að ganga upp tröppur hærra en á fyrstu hæð, nema e.t. v. með stoppum.

Akstur bifreiðar: Ekki er mælt með að aka bíl fyrstu tvær vikurnar eftir brjóstastækkun.

Næstu 2-5 vikur má gjarnan hreyfa sig meira. Mælt með lengri göngutúrum. Ekki er þó ráðlegt að stunda íþróttir (líkamsrækt, fitness, hlaup, cross fit og álíka), fyrr en eftir 5-6 vikur. Fótbolti, handbolti, körfubolti og álíka, er ekki mælt með fyrst 3 mánuðina. Það er líka mikilvægt að hlusta á líkamann þegar byrjað er að stunda íþróttir og byrja rólega. Hvenær sjúklingar eru klárir í slaginn er líka mjög einstaklingsbundið.

Fylgikvillar sem geta komið upp á fyrsta sólahringnum og/eða á næstu vikum

Blæðing eftir aðgerð er eini fylgikvillinn sem getur flokkast sem bráða fylgikvilli. Algengast er að þetta gerist innan við sólahring eftir aðgerðina, en getur í raun gerst fyrstu 2 vikurnar ef sjúklingur passar ekki upp á púlsinn. Birtingamynd blæðingar er oftast að gúll myndast skyndilega undir húðinni á aðgerðarsvæðinu. Þegar um brjóstaaðgerðir er að ræða þá stækkar skyndilega annað brjóstið mun meira en hitt nokkrum klst. eftir aðgerðina. Ef það gerist er nauðsynlegt að hringja í skurðlækninn um leið og sjúkling grunar sterklega blæðingu. Þá er í langflestum tilvikum nausynlegt að framkvæma bráða enduraðgerð. Það er nauðsynlegt að gera enduraðgerðina í svæfingu og því er lykil atriði að sjúklingur borði enga fasta fæðu frá þeirri stundu sem hann grunar blæðingu. Afleiðingar enduraðgerðar vegna blæðingar, er að mar á aðgerðarsvæðinu verður meira áberandi og það tekur lengri tíma að jafna sig. Ekki verður varanlegur skaði af þessu.

Sýking: Ef sjúklingar taka eftir roða í kringum skurði, t.d. undir öðru brjóstinu, þá er mikilvægt að hafa samband við skurðlækninn. Lengra gengin sýking getur valdið hita og almennum slappleika. Þetta gerist gjarnan dögum eða vikum eftir aðgerð. Ef sjúklingur býr ekki nálægt, er bent á heimilislækni. Sýklalyfjameðferð er venjulega gefin og fylgst með að meðferðin skili árangri.

Hvað varðar aðra fylgikvilla bendi ég á upplýsingar á heimasíðunni um einstakar aðgerðir.


Kári Knútsson | Lýtalæknir

Sími fyrir tímapantanir er 519 7000

Fyrirspurnir eða tímapantanir er einnig hægt að senda á netfang This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.


Vefhönnun: Vefheimar ehf